Klámið í Kastljósinu

Hann var sniðugur vinkillinn hans Þórhalls Gunnarssonar inn í Kalla Bjarna málið í gær.

Klókt af honum að leyfa mömmunni að pústa soldið um hvað fjölmiðlar væri vondir að greina frá staðreyndum til þess að geta svo fengið hana til að velta sér upp úr sorgum sonar síns fyrir framan alþjóð í góðar fimmtán mínútur.

Eðall líka að fá mömmuna til að lesa upp úr bréfinu sem Kalli skrifaði til móður sinnar úr einangrunarklefanum á Litla-Hrauni. Það var örugglega það sem Kalli vildi þegar hann skrifaði mömmu sinni bréfið.

Allt var þetta framleitt eftir kúnstarinnar reglum. Það eina sem vantaði var tár á hvarmi móðurinnar til að fullkomna innslagið hans Þórhalls.

Venju samkvæmt var hæfilegur gaumur gefinn af "samfélagslega mikilvægum boðskap" svo Kastljósið yrði ekki sakað um að gera sér mat úr ógæfu Kalla. Það var snyrtilega leyst eins og venjulega. Mamman bað fólk um að nota ekki dóp, og óvenju glysgjarn Bubbi Morthens mætti í myndver og sagði að dópistar væru geðveikir og ættu að fara í AA.

Kastljósið kann sitt fag. Og þá sérstaklega Þórhallur Gunnarsson. Hann þekkir þá list betur en flestir að færa áhorfendum sínum tabloid orienterað tilfinningaklám í samfélagslega mikilvægum boðskapsbúning.

Maður gæti freistað að láta ódýr trix eins og lokka viðmælendur í viðtöl á þeim forsendum hvað aðrir fjölmiðlar hafi verið "vondir" fara í taugarnar á sér. En það eru einfaldlega orðin það viðtekin vinnubrögð í íslenskum fjölmiðlum að það tekur því varla.

Í stórum fréttamálum á Íslandi verður umfjöllunin allt of oft að aðalatriði.

Aðalatriði verða að aukaatriðum og aukaatriði að aðalatriðim

Eitt að lokum.

Mamma hans Kalla Bjarna sagði að ef sonur sinn væri Jón út í bæ þá hefði hann ekki verið nafngreindur í fréttum um fíkniefnainnflutningin. Þetta þykir henni ósanngjarnt.

En móðir Kalla verður að skilja að Jón út í bæ hefur heldur aldrei troðið einkalífi sínu í tímaritsviðtöl til að auka plötusölu. Eða hórað nafni sínu eða stöðu í Innlit/Útlit til að þess að fá afslátt af blöndunartækjum í Byko eða frítt sófasett í Húsgagnahöllinni.

Þeir sem slíkt gera hljóta að sætta sig við það að um þá sé fjallað með öðrum hætti enn Jón út í bæ í fjölmiðlum.

 

 


Sakborningi vorkennt

Það er undarlegt málið sem lauk í Hæstarétti Íslands í gær. Þar var þyngdur dómurinn yfir Lofti Jens Magnússyni, sem varð manni að bana með þungu hnefahöggi í hálsinn á sveitakránni Ásláki í Mosfellsbæ í desember 2004.

Hæstiréttur þyngdi dóm héraðsdóms yfir Lofti úr tveimur árum í þrjú, enda þótti dómurinn í héraði óvenju vægur.

Það kom til vegna þess að Jónas Jóhannesson dómari tók upp á þeirri nýbreytni að telja Lofti það til málsbóta að um mál hans hefði verið fjallað í fjölmiðlum. Jónas dómari vorkenndi Lofti svo mikið að þurfa að hafa verið á síðum blaða á borð við DV að hann gaf honum ríflegann afslátt á fangelsisvistina.

Þetta er afar sérkennilegt. Ég stóð í þeirri trú að málið sem Jónas var að dæma væri á milli ákæruvaldsins og Lofts. Ég get ekki séð að fjölmiðlar á borð við DV eigi að koma því nokkuð við.

Nú ef Lofti svíður umfjöllunin um þann hörmulega atburð, sem hann varð valdur að, er honum að sjálfsögðu frjálst að höfða mál á hendur þeirra sem henni bera ábyrgð.

En það mál á ekki að leiða til lykta í máli ákæruvaldsins gegn Lofti.

Sem betur fer eru aðeins skynsamari menn og konur sem sitja í Hæstarétti en í héraði. Dómararnir þar á bæ komu fljótt auga á að um of vægann dóm voru að ræða og þyngdu hann í þrjú ár í gær.

Þar með virtu þeir að engu vitleysislegan dóm Jónasar Jóhannessonar.   

 


Hættulegir siðapostular

Undanfarna daga hafa verið fluttar fréttir af áyggjufullum hollenskum siðapostulum. Siðapostularnir býsnast yfir sjónvarpsþætti sem fyrihugað er að sýna þar í landi. Í þættinum mun dauðvona kona velja hvaða keppandi verður svo heppin að fá að þiggja nýrað úr henni þegar hún fellur frá.

Nú get ég alveg fallist á að þarna er ekki fram komin smekklegasta hugmynd allra tíma að sjónvarpsþætti. Líklega jaðrar þetta við að vera algjörlega siðlaust. Um það verður ekki deilt.

Hins vegar líkar mér illa þegar siðapostular og álitsgjafar hvers konar heimta að þátturinn í Hollandi skuli banna, að svona þætti eigi ekki að leyfa. Að hann sé birtingarmynd siðspillts samfélags okkar.

Það er nefnilega þannig að fáir hópar hafa staðist dóm tímans jafn illa og siðapostular. Þeir sem sífellt gagnrýna það sem þeir ekki skilja og þekkja.

Leyfa hræðslu sinni við hið óþekkta að leiða sig að skoðunum sem eru mun hættulegri en það sem gagnrýnt er.


Fordómafullar Pöndur

BBC segir frá því að eina risa pandan sem getin hefur verið í dýragarði og hleypt þaðan í náttúruleg heimkynni hafi nýlega fundist dauð. Við krufningu á pöndunni komu í ljós alvarlegir innvortis áverkar sem dregið höfðu dýrið til dauða. Sérfræðingar segja að áverkana hafi pandan að öllum líkindum hlotið við það að hrapa niður úr tré skammt frá þar sem hún fannst.

Sérfræðingarnir segja einnig að þetta hafi líklega gerst þegar pandan var á flótta undan öðrum árásargjörnum pandadýrum sem ekki hafi getað fellt sig við dýragarðsræktaða pöndu í samfélagi sínu.

Pöndur hafa með þessu tapað sæti sínu á lista mínum yfir fimm krúttlegustu dýr í heimi. Því útlendingahatur er ekki krúttlegt.


Fréttamat/ur

 Á það var bent í heimildarmynd, sem Rúv sýndi í gær, um hin kanadíska Roméo Dalleire, sem stýrði vopnuðu liði Sameinuðu þjóðanna í Rúwanda, að á meðan Hútúar og Tútsar murrkuðu lífið miskunnarlaust úr hvor öðrum komst lítið annað að í fréttatímum víðs vegar um heiminn en réttarhöldin yfir OJ Simpson.  Mig grunar að lítið hafi breyst hvað þetta varðar. Ef harmleikurinn í Rúwanda ætti sér stað í dag efast ég um að fréttir af honum hann myndi komast í topp 5 á mest lesið listann á mbl.is. Sá listi hefur fyrir löngu verið einokaður af Lindsay, Britney, Paris og vinkonum þeirra.


Sem minnir mig á það...Hvað er málið með Lindsay? Farinn aftur í meðferð?

 

Þessari færslu líkur á fleygustu orðunum úr réttarhöldunum sem ég gat um hér að ofan. Þau mælti stjörnulögmaðurinn Johnny Cochran, sem nú er fallin frá, þegar hann útskýrði fyrir kviðdómi að hinn blóði drifni hanski sem eignaður var OJ væri falsað sönnunargagn.

 

If the glove don´t fit

You must acquit


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband